Að byrja í leikskólanum

Í aðlögun er lagður grunnurinn að góðu samstarfi og vellíðan barns í leikskóla. Börn þurfa mislangan tíma til að aðlagast nýju umhverfi, kynnast öðrum börnum starfsfólki leikskólans og læra að þekkja dagskipulagið . Engir tveir eru eins og aðlögunartíminn er því einstaklingsbundinn. Oftast er þó miðað við fimm virka daga í aðlögun.

Dagur 1: Heimsókn með foreldrum í klukkustund. Foreldrar eru með barninu allan tímann.

Dagur 2: Barnið er 1 ½ klst í leikskólanum og EF barnið er tilbúið fer foreldri frá í 30-60 mín.

Dagur 3: Barnið kemur í morgunmat og er líka í hádegismat. Foreldri kveður skömmu eftir að komið er með barnið í leikskólann. Barnið er sótt kl. 12:15.

Dagur 4: Barnið kemur í morgunmat og er í hádegismat og hvíld. Foreldri kveður skömmu eftir að komið er með barnið í leikskólann. Barnið er sótt kl. 15.

Dagur 5: Barnið er í 7 tíma í leikskólanum.

Það sem foreldrar þurfa að koma með:

Aukaföt

 • 2 samfellur/nærföt
 • 2 sokkabuxur/gammósíur
 • 2 pör af sokkum
 • 2 buxur
 • 2 langermaboli/peysur

Föt í töskunni/hólfinu í fataklefa:

 • 3 vettlingapör
 • Pollagalli/Kuldagalli
 • Ullarsokkar
 • Kuldaskór/stígvél
 • Hlý peysa
 • 2 húfur

Á sumrin:

 • Sólarvörn-á sólríkum dögum er gott að vera búin að bera á börnin þegarþau koma í leikskólann.
 • Buff/þunna húfu
 • Létta skó sem börnin geta auðveldlega klætt sig í sjálf

 • Bleyjur - ekki buxnableyjur
 • Snuð – taka reglulega með heim og þrífa eða skipta
 • Stútkönnu/brúsa

Fyrsti dagur aðlögunar:

Til að hægt sé að taka sem best á móti ykkur og barninu biðjum við ykkur vinsamlegast um að mæta með barnið á þeim tíma sem leikskólastjóri/deildarstjóri hefur gefið ykkur.

Mikilvægt er að mæta með barnið og sækja það á þeim tíma sem samið er um á meðan á aðlögun stendur.


Daglegt líf í leikskólanum

Dagskipulagið er okkar stundarskrá og innan hennar raðast öll þau verkefni sem leikskólinn hefur einsett sér að vinna og leysa úr með nemendum sínum. Skipulagning og tímasetning daglegra venja gefur starfinu reglubundið og ákveðið form sem skapar öryggi og festu og er unnið með hliðsjón af aldri barnanna og samsetningu barnahópsins.

Dagskipulagið verður að styðja virkt nám og frjálsan leik og gefa öllum sem að koma; börnum, kennurum og foreldrum tilfinningu fyrir því hvað kemur næst.

Dagskipulagið okkar er eins alla daga.

Á öllum deildum er sýnilegt dagskipulag og með því:

 • vita allir hvað kemur næst
 • börnin vita hvert þau eiga að fara.
 • öðlast börnin öryggi, sjálfstraust og frumkvæði.
 • læra börnin að treysta á dagskipulagið og vita í hvaða röð hlutirnir gerast.
 • læra börnin að vega og meta þá valkosti sem þau hafa, framkvæma það sem þau völdu og ljúka við það

Það er mikilvægt að láta börnin vita strax á morgnana ef einhver hluti dagsins er öðruvísi en vanalega (t.d. ef veðrið er það slæmt að ekki er hægt að fara út, hópastarf fellur niður vegna leiksýningar, kennari eða barn er veikt eða annað).


Hagnýtar upplýsingar:

Söngfundur er alltaf síðasta fimmtudag í mánuði kl. 15:30. Þá eru foreldrar, systkini, ömmu og afar velkomin að koma og syngja með okkur.

Foreldrafundur er einu sinni á ári, fyrstu vikuna í október, kl. 10. Þá er ein deild í einu með fund fyrir alla foreldra barnanna á deildinni þar sem farið er yfir starfið á leikskólanum og mikilvægum upplýingum varðandi starfið og leikskólann komið á framfæri.

Foreldraviðtöl eru einu sinni á ári. Það er einstaklingsviðtal, þar sem deildarstjóri/hópstjóri og foreldrar ræða barnið, stöðu þess og almenna líðan. Foreldrum er að sjálfsögðu alltaf velkomið að óska eftir fundi við deildarstjóra eða leikskólastjóra.

Piparkökubakstur er fyrstu vikuna í desember en þá baka börnin piparkökur í hópastarfi. Þau bjóða svo upp á piparkökur í aðventukaffinu.

Jólaball er aðra vikuna í desember

Aðventukaffi er þriðju vikuna í desember.

Sumarleyfi. Öllum börnum í leikskólanum er skylt að taka fjórar vikur samfellt í sumarfrí. Leikskólinn er lokaður í fjórar vikur samfellt í júlímánuði.

Veikindi. Veikindi ber að tilkynna til leikskólans og það er góð og gild regla að miða við að börn skuli vera hitalaus heima í einn til tvo daga eftir veikindi. Algengt er að börn sem hefja skólagöngu fái fjölmargar pestir fyrsta hálfa árið. Nauðsynlegt er að barnið jafni sig vel af veikindum sínum heima og mæti aftur frískt í leikskólann svo það geti tekið þátt í allri daglegri starfsemi leikskólans úti sem inni.

Lyf. Lyf eru ekki gefin í leikskólanum nema í neyðartilfellum.

Komur og brottfarir. Nauðsynlegt er að láta starfsfólk vita þegar komið er með barn í leikskólann og að sama skapi þegar barn er sótt. Ef aðrir en foreldrar sækja barnið í leikskólann ber að láta starfsfólk vita. Aldurstaksmark þeirra sem sækja barn í leikskóla er tólf ára samkvæmt reglum frá Umboðsmanni barna.

Slys og óhöpp. Slys og óhöpp geta alltaf átt sér stað. Ef slíkt kemur fyrir munum við strax hafa samband við foreldra og farið er með barnið á slysadeild eða tannlæknis ef þörf krefur.

Barnavernd. Lögum samkvæmt ber okkur að tilkynna hvers konar vanrækslu eða misnotkun til Barnaverndarnefndar. Tilkynning okkar er alltaf undir nafni leikskólans.