news

Annáll 2020

12 Jan 2021

Takk fyrir hið undarlega leikskólaár 2020!

Það var nú allskonar, foreldrar með grímur og takmarkaðan aðgang að leikskólanum, sem er nú algjörlega andstætt því sem við viljum!

Í 6 vikur var börnum og starfsfólki skipt í 2 hópa og gátu bara mætt 2 daga í röð og voru svo heima í 2-3 daga, það voru undarlegir leikskóladagar.

Morgunsöngurinn okkar var settur í pásu nánast allt árið svo það eru börn, starfsfólk og foreldrar sem hafa ekki enn upplifað þá skemmtun sem morgunsöngurinn er. Við vonum að ástandið fari að lagast svo við getum öll farið að hittast á ganginum og syngja saman :)

Hafragrauturinn var líka settur í frí þar sem ekki mátti fara á milli deilda og hólfa og Cheeriosið tók völdin. Í dag mætti hafragrauturinn aftur í öllu sínu veldi og það var þvílík gleði, helst hjá þeim yngri. Við vonum að það sé komið til að vera :)

Sumarhátíðin var foreldralaus en við skemmtum okkur engu að síður vel, Lotta kom og við gerðum bara það besta úr undarlegum aðstæðum. Því miður var ekki heldur hægt að bjóða foreldrum í aðventukaffi í desember en jólasveinarnir fengu að koma og það var svo skemmtilegt, það komu þrír jólasveinar, einn í hvert hólf og allir nutu sín miklu betur. Meira að segja jólasveinarnir töluðu um hvað var gaman og notalegt að koma svona inn á deildirnar.

Leikskólanum hefur verið skipt upp í þrjú sóttvarnarhólf og hluti starsfmanna hefur ekki hist í margar, margar vikur þar sem við höfum verið með kaffistofur í sitthvorri álmunni og öllum skipt upp.

Útiveran jókst þar sem við höfum skilað úti nánast allt haustið og alveg fram að jólum, og við erum þakklát veðurguðunum sem hafa svo sannarlega verið með okkur í liði og úthlutað nokkuð mildu veðri! Við erum alveg sátt við það og alltaf gaman að leika úti.

Hér hefur verið nokkuð um starfsmannabreytingar, fæðingarorlof að hefjast og ljúka, námsmenn að klára nám og koma í fulla vinnu, aðrir að fara í nám og fara í hlutastarf en það er gleðilegt að leikskólinn er fullmannaður og öll pláss full þessa stundina.

Stóra verkefnið 2021 er að leikskólalóðin verður tekin í gegn en þar sem við erum nú vön allskonar raski eftir að hafa stækkað skólann og verið í fullum rekstri þá munum við takast á við það verkefni af ánægju, gleði og útsjónarsemi!

Vertu velkomið 2021!