Hér má finna algengar spurningar og svör um HighScope stefnuna:

Algengar hs spurningar
Uppruni HighScope stefnunnar

HighScope stefnan kemur frá Ypsilanti Michigan og upphafsmaður hennar er David Weikart (f. 1931). Hann mótaði þessa stefnu til að sporna við háu falli fátækra nemenda úr gagnfræðiskólanum í Ypsilanti. Nemendur úr fátækrahverfunum höfðu skorað lágt á greindar-og akademískum prófum ár eftir ár og Weikart leitaði ástæðunnar og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir þetta síendurtekna brottfall fátækra nema. Hann komst að því að þetta lága skor nemendanna væri frekar vegna þess að þeir hefðu takmörkuð tækifæri til undibúnings fyrir skólagöngu frekar en þau væru fædd með lága greindarvísitölu. Weikart og nokkrir skólastjórnendur fóru að íhuga snemmtæka íhlutun fyrir 3-4 ára börn og urðu sífellt hrifnari af þeirri hugmynd að undirbúa börn á leikskólaaldri betur fyrir komandi skólagöngu. Weikart fékk því leyfi til að koma af stað leikskóla í Michigan og hann og félagar hans sneru sér að skrifum Piaget því kenning hans um þroska barna studdi heimspekilegt viðhorf Weikarts og félaga um virkt nám.

HighScope stefnan byggir á langtímarannsóknum Weikarts og félaga og það má lesa nánar um rannsókn þeirra hér.

Hér á eftir er stiklað á stóru um helstu þætti dagskipulagsins í HighScope umhverfi.


Virkt nám

Virkt nám er hjarta HighScope stefnunnar. Börnin eru virkir þátttakendur í eigin námi og hafa tækifæri til að koma hugsunum sínum í orð og framkvæmd. Þau hafa tíma og næði til að kanna efniviðinn með öllum skynfærum sínum og fá til þess stuðning og hvatningu kennara.

5 þættir í virku námi

 • Efniviður
 • Meðhöndlun á efnivið
 • Val
 • Orð og hugsanir barna
 • Stuðningur kennara

Jákvæðar hliðar á virku námi

 • Virkt nám veitir börnum og fullorðnum tækifæri til að kanna saman efniviðinn og koma hugmyndum sínum í framkvæmd
 • Dregur úr árekstrum milli barna og fullorðinna þar sem kennarar hvetja, styðja og ýta undir að börnin framfylgi eigin hugmyndum, áhuga og frumkvæði.
 • Hjálpar börnunum að viðhalda áhuga sínum á því sem þau taka sér fyrir hendur og minnka þar með líkurnar á því að þeim leiðist vegna þess að þau fá að gera það sem ÞAU hafa áhuga á.
 • Börnin fá tækifæri til að þroska með sér getuna til að sjá um sig sjálf og leysa eigin vandamál sjálf.

Virkt nám reynir á líkama og huga

Börnin nota allan líkamann og öll skynfærin þegar þau kanna og fræðast um nánasta umhverfi sitt. Þau eru að draga, ýta, færa hluti, kreista, setja ofan í og taka upp úr, setja saman hluti, henda, þefa, naga, hrista, rúlla og slá á hluti svo fátt eitt sé nefnt. Af þessari reynslu byggja þau upp þekkingu á hlutunum í umhverfinu.

Um leið og börnin kanna efniviðinn og láta reyna á hugmyndir sínar er hugur þeirra virkur. Það liggur ákveðin hugsun að baki í samskiptum þeirra, þau spyrja og svara eigin spurningum, það verða vandamál á vegi þeirra sem þau leysa sjálf um leið og þau meðhöndla efniviðinn. Valið, opnar spurningar og tilraunir þeirra hjálpa þeim að skilja betur heiminn í kringum þau.

Dagskipulag

„Hvað gerum við núna?", „Hvað gerist næst?", „Hvenær höfum við tíma til...?", „Hvenær förum við út?" eru algengar spurningar hjá börnum og með sýnilegu dagskipulagi, sem er eins alla daga, öðlast börnin öryggi og sjálfstraust. Þau læra að treysta á dagskipulagið og vita í hvaða röð hlutirnir gerast. Þegar þeim er gefinn tími til að vega og meta þá valkosti sem þau hafa, framkvæma það sem þau völdu og ljúka við það, eiga samskipti við aðra og fá tækifæri til að leysa sjálf úr vandamálum eflist sjálfstæði þeirra og frumkvæði.

Skilaboðaskjóðan

Það er mikilvægt fyrir börnin að vita hvað er um að vera hverju sinni. Í gegnum skilaboðin, sem eru ýmist teikningar, tákn, orð, stafir eða tölustafir „lesa" börnin um sérstaka atburði, nýjan efnivið, breytingar á dagskipulagi, fjarveru barna og starfsmanna og ýmislegt annað sem kann að hafa áhrif á daginn þeirra. Farið er yfir skilaboðaskjóðuna með öllum barnahópnum saman og þau hvött til að „lesa" hana.

Skilaboðaskjóðan.pptx ýtir undir lestur, eflir málþroska þeirra og hvetur til samræðna, lesturs og skriftar. Hún ýtir einnig undir getu þeirra til að leysa úr vandamálum og eflir félagsþroskann.


Val

Val-leikstund-rifja upp er sá hluti dagskipulagsins sem tekur lengstan tíma.

Valið tekur um 10-15 mínútur og fer þannig fram að börnin eiga sinn hóp og sinn kennara sem þau velja með og þau fara á ákveðið svæði þar sem valið fer fram. Misjafnar leiðir eru farnar til að velja, hægt er að gera það munnlega, með látbragði, myndum og/eða leikmunum (síma, tölvumús, kíki, húlahring, bíl, blaði osfrv).

Barnið segir frá því hvað því langar að gera og deilir því með kennaranum og hópnum. Kennarinn hlustar og fylgist með, biður um frekari útskýringar ef honum þykir þurfa. Oft skráir hann val barnsins á einhvern hátt því það gerir barninu ljóst að val þess er mikilvægt og tekið er eftir því.

Með valinu eru börnin að tengja áhuga sinn við leik með ákveðnum tilgangi.

Þegar börnin hafa valið mega þau fara strax á það svæði sem þau völdu sér og hefjast handa!
Leikstund

Þegar börnin hafa valið leggja þau upp í leikstundina með ákveðnar hugmyndir og þar af leiðandi öðlast leikurinn ákveðinn tilgang og hefur meiri þýðingu fyrir þau.

Börn fá margar hugmyndir sem þau vilja reyna og þegar þau fá tækifæri til að fylgja þeim eftir öðlast þau frumkvæði og framtakssemi þeirra eykst. Á hinn bóginn, ef þau fá ekki tækifæri til þess að fylgja hugmyndum sínum eftir, hætta þau að taka af skarið og sýna frumkvæði.

Í leikstundinni fá þau tækifæri til að framkvæma hugmyndir sínar, spyrja spurninga, meðhöndla efnivið og ræða við aðra um hvað þau eru að gera.

Í leikstundinni eflast því einnig félagsleg samskipti því börn leika oft nokkur saman og jafnvel þau sem kjósa að vera ein eru í návígi við aðra svo samskipti eiga sér stað allt um kring.

Þessi tækifæri sem börn fá í leikstundinni leiða til þess að þau öðlast nýja þekkingu og fá betri skilning á heiminum í kringum þau auk þess sem þau bæta við kunnáttu sína í stærðfræði, vísindum, listum, tónlist og fleiru.

Kennarar eru virkir þátttakendur í leikstundinni og taka þátt í verkefnum barnanna, styðja þau og hvetja eftir þörfum, allt á forsendum barnanna.Að taka saman

Það er mikilvægt fyrir börnin að fá tíma til að ljúka þeim viðfangsefnum sem þau eru upptekin við það og það skiptið. Tiltekt á að vera hluti af leiknum og börnin verða að fá tíma til að ljúka við það sem þau eru að fást við. Því er þeim gefin viðvörun nokkru áður en á að fara að taka saman svo þau fái tíma til að klára.

Það er mikilvægt að skipuleggja aðferðir við að taka saman og gera þennan þátt dagskipulagsins hluta að leiknum.Rifja upp

Börnin koma saman eftir leikstundina, með kennaranum og hópnum

sem þau völdu með, og rifja upp það sem þau voru að gera. Kennarinn hlustar gaumgæfilega á börnin og ræðir við þau um það sem þau gerðu í leikstundinni. Eftir því sem þau öðlast meiri reynslu í að rifja upp geta þau farið að telja upp í réttri röð hvað þau gerðu í leikstundinni.

Kennarinn notar ólíkar aðferðið við að rifja upp (líkt og þegar þau velja) en megintilgangurinn er að fá börnin til að hugsa um námsferlið sem þau fóru í gegnum í leikstundinni, auka orðaforðann og koma orðum að þeim athöfnum sem þau framkvæmdu.

Það er mikilvægur þáttur að geta hugsað um það ferli sem átti sér stað og að deila því með öðrum. Með því að rifja upp tengja börnin valið og athafnir sínar í leikstundinni saman og það fer að mynda eina heild fyrir þeim. Kennarinn notar opnar spurningar sem hvetja börnin til að hugsa til baka og rifja upp.Hópastarf

Kennarinn kynnir efniviðinn fyrir börnunum en þau fá að velja og ráða hvað þau gera við hann því börn læra best af eigin reynslu með efniviðinn, ekki af því að horfa á aðra meðhöndla hann. Þetta þýðir að hvert barn í hópnum fær sína eigin kubba, bíla, pensla og málningu eða hvern þann efnivið sem er í hópastarfinu og gera það sem þau vilja við hann.

Hver hópatími veitir því mörg námstækifæri og það eru margar áskoranir að takast á við þegar börnin vinna með og velja efnivið.


Samverustundir

Börn á leikskólaaldri eru mjög sjálflæg, allt snýst um ,,mig" og ,,mitt". Þau eru að uppgötva sig sem einstaklinga og er það hluti af eðlilegu þroskaferli. Til að verða hluti af stærra samfélagi verða börn að þroska með sér heilbrigt sjálf og í samverustund fá þau tækifæri til að upplifa það. Þar sem allir taka þátt í samverustundinni myndast lítið samfélag þar sem börnin upplifa frá fystu hendi hvernig það er að vera hluti af heild, þar sem allt snýst um ,,okkur".

Börnin koma öll með sitt innlegg í samverustundina, hvort sem það er tillaga að lagi, leik, hreyfingu eða hugmyndir að einhverju öðru. Þannig eru þau virkir þátttakendur. Það er mikilvægt að börnin fái að nota líkama sinn, efnivið, hljóðfæri eða annað í samverustundinni og hafi val um hvernig á að hreyfa sig, hvaða lag á að syngja, hvaða sögu á að segja eða leika.

Samverustundir gegna því einnig mikilvægu hlutverki fyrir félags-og málþroska barna.
Lausnaleit

Dæmigerðir árekstar í leikskólum eru:

Hlutir - börn lenda í árekstrum vegna þess að það vilja fleiri en einn leika með sama hlutinn á sama tíma.

Rými - börn lenda í árekstrum vegna eþss að fleiri en einn vill vera á sama svæði á sama tíma.

Forréttindi - börn lenda í árekstum/deilum vegna þess að þau vilja forréttindi; fá að sækja matinn, vera fyrst í röðinni, halda áfram að gera e-ð þegar á að fara að gera annað osfrv...

Félagsleg - börn lenda í árekstrum vegna félagslegra þarfa eða samskipta, tvö börn neita barni að vera með í leik, barn misskilur e-ð sem annað barn sagði/gerði, reglurnar eru ólíkar osfrv.

Það er mikilvægt að kennarinn sé hlutlaus og taki ekki afstöðu með neinum heldur hlusti á allar hliðar af upplifun barnanna, viðurkenni tilfnningar og líðan hvers og eins, geri dótið hlutlaust og spyrji opinna spurninga til að finna lausn á vandamálinu. Börnin koma oftast með lausnina og hún þarf að virka fyrir þau, ekki fullorðna fólkið. Það þarf að láta börnin vita og finna að þau hafi leyst vandamálið og fylgja því eftir.

Hér má finna 6 þrep til að leysa vandamál


Ávinningur af HighScope stefnunni

 • Dagskipulag sem er eins á hverjum degi, fyrirsjáanlegt en sveigjanlegt og hefur markmið og tilgang fyrir börnin.
 • Hlý og vinaleg samskipti sem einkennast af virðingu, ýta undir og efla alhliða þroska barnsins
 • Gerir ráð fyrir að börnin sýni frumkvæði
 • Markvissara starf
 • Markmið kennara eru skýrari og þeir eru öruggari í sínu starfi

Hér er heimasíða HighScope þar sem má lesa sér til um allan sannleikann um HighScope.

Og í Skólanámskrá Mánagarðs má lesa nánar um ofangreinda þætti í HighScope og meira til.