Leikskólinn Mánagarður var stofnaður 9. september 1996 og hefur Félagsstofnun stúdenta rekið hann frá upphafi með þjónustusamning við Reykjavíkurborg.

Árið 2018 var leikskólinn stækkaður og fór úr því að vera 4ra deilda leikskóli í 7 deilda leikskóla.

Á Mánagarði dvelja börn í 8 - 8,5 tíma vistun.

Yngri deildir leikskólans; Hulduhóll, Álfasteinn og Dvergaberg eru á Eggertsgötu 34. Þær eru opnar frá kl. 8-16.

Eldri deildirnar; Skessuskot, Tröllahellir, Drekadyngja og Dísaskógur eru á Eggertsgötu 30-32 og þar er opið frá 7.30-16:30.

Börnunum er raðað á deildir eftir aldri og getur aldursskipting verið breytileg frá ári til árs þar sem hún ræðst af barnahópnum hverju sinni.

Stöðugildi eru 35 og fer fjöldi starfsmanna á deild eftir aldri barnanna.

Leikskólastjóri Mánagarðs er Soffía Emelía Bragadóttir (soffia@fs.is)

Aðstoðarleikskólastjóri er Íris Dögg Jóhannesdóttir (iris@fs.is)Á Mánagarði er unnið eftir bandarískri hágæðastefnu, HighScope, og eru tveir kennarar leikskólans menntaðir HighScope kennarar og þjálfar.

Hornsteinn HighScope er trúin á að virkt nám sé undirstaðan fyrir manneskjuna til að ná fullum þroska og getu og að virkt nám sé árangursríkast í umhverfi þar sem börnin fá verkefni sem hæfa aldri og þroska þeirra. Nám er félagsleg reynsla þar sem börn eiga í miklum samskiptum í leik og starfi. Börn læra hlutina á ólíkan hátt, hafa ólík áhugamál og hlutirnir liggja misvel fyrir þeim en þau eru líkleg til að ná bestum þroska þegar þau eiga í samskiptum við aðra, bæði jafningja og fullorðna.

Persónulegt frumkvæði barnanna er það sem liggur að baki virku námi þeirra. Ung börn fylgja löngun sinni til að kanna hluti, þau spyrja og leita svara við spurningum um fólk, efni, hugmyndir og hluti sem þau hafa áhuga á og vekja forvitni þeirra, þau leysa vandamál sem koma í veg fyrir að þau nái markmiðum sínum og leita nýrra leiða til að ná þeim.

Í HighScope er einblínt á styrkleika barnanna og getu og þau hvött til að koma hugmyndum sínum á framfæri og framkvæma þær. Börnin öðlast traust og frumkvæði, forvitni þeirra eykst, þau verða úrræðagóð, sjálfstæð og ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr.

Virkir nemendur eru einbeittir og áhugasamir um eigin gjörðir og hugsanir. Þeir finna sér margt til dundurs og tala oft um það sem þeir ætla að gera. Börn í virku námsumhverfi taka ákvarðanir byggðar á eigin áhuga og eigin spurningum og þau fá tíma til að fylgja eigin áætlunum eftir. Þau eru í samskiptum við fólk sem þau deila hugmyndum sínum, athugunum og áætlunum með og fái þau viðeigandi stuðning og hvatningu frá kennara verða þau sífellt virkari í eigin námi.

Íris Dögg Jóhannesdóttir er þróunarstjóri og HighScope kennari.